Innskráning í Karellen
news

Dagur læsis ❤️

08. 09. 2021

Við fengum góða gesti frá vinkonum og vinum í Barnaskólanum á degi læsis en þau komu, sáu og sigruðu með því að lesa fyrir vinkonur og vini á miðeiningu og elstu einingunni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 1965 helgað 8. september málefnum læsis. Í yfirlýsingu frá UNESCO, menningar og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, segir að læsi teljist til grunnlífsleikni. Læsi er að sönnu kjarni alls náms og er undirstaða hverrar kennslustundar, þannig að í raun má segja að hver og einn dagur sé dagur læsis. Á degi læsis er fólk, hvar sem er í heiminum, hvatt til þess að skipuleggja læsisviðburði. Það má gera með því að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota tungumálið til ánægjulegra samskipta.

Í Aðalnámskrá leikskólanna frá 2011 segir að læsi hafi lengi verið tengt við þá kunnáttu og færni að geta ritað og lesið texta sér til gangs. Með tímanum hefur hugmyndum manna um læsi þó breyst og horft er til fleiri þátta. Læsi krefst þannig skriffæra, efnis til að skrifa á og miðils, t.d. bókar, til að koma ritsmíðinni á framfæri og snýst því að hluta til um tæknimiðla og verkkunnáttu en ekki einvörðungu um lestur, hlustun, tal og ritun eins og áður.

© 2016 - Karellen