Innskráning í Karellen

Farsæld barna felur í sér að tryggja aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar samkvæmt nýrri löggjöf um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Samþætt þjónusta er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni.

Farsæld_barns-removebg-preview

Í Hnoðraholti höfum við ætíð starfað eftir meginreglu 1. sem er “börn og foreldrar” þar sem segir skýrt að : okkar sé að virða og viðurkenna ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Skólanum ber einnig að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa á víðfeðman hátt að velgengni allra.

Eins segir: “Öll börn eru sérþarfabörn – en þurfi barn sérstaka aðstoð eða sérstök úrræði vegna þroskastöðu, hegðunar eða aðstæðna sinna að öðru leyti, metur skólinn með foreldrum hvernig staðið skuli að slíkri aðstoð. Engin ein leið er rétt, heldur ráða þarfir barnsins ferðinni samkvæmt mati þeirra sérfræðinga sem að málinu koma og úrslitavaldið er hjá foreldrum.”

Þannig mætti færa rök fyrir því að Hjallastefnan hafi verið búin að taka stór skref í þágu farsældar barna fyrir hartnær 30 árum, en með löggjöfinni ættum við að vera enn lengra komin hvað varðar samstarf við aðra sérfræðinga og fagfólk sem starfa með börnum og ungmennum. Þröskuldum á að fækka.

Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið í nærumhverfi barnsins, svo sem í leikskóla eða grunnskóla. Tengiliður veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana. Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengilið skólans.

Stigskipting farsældar þjónustu

Á fyrsta stigi er grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og áhersla lögð á snemmtækan stuðning á markvissan hátt.

Á öðru stigi er veittur einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur i samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns á grundvelli stuðningsáætlunar.

Á þriðja stigi er veittur einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns á grundvelli stuðningsáætlunar.


Tengiliður Hnoðraholts er Birna Markúsdóttir sérkennslustýra birnamar@hjalli.is

Hlutverk tengiliðar er að:

  1. Veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
  2. Aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns.
  3. Skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
  4. Koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra í þjónustu í þágu farsældar barns.
  5. Taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.
© 2016 - Karellen