Innskráning í Karellen

Hreyfistund

Hreyfistund er skipulögð stund þar sem kennari leiðir hóp barna í margskonar leiki, æfingar, hreyfisöngva, öndunaræfingar og slökun.

Skipulag hreyfistunda fylgir hugmyndafræði og kynjanámskrá Hjallastefnunnar.

Í hreyfistund er lögð áhersla á að efla skyn – og hreyfiþroska og stuðla að góðri hreyfifærni með grunnhreyfingar barna til hliðsjónar.

Grunnhreyfingar barna eru 14 talsins: snerta, velta sér, skríða, rúlla, sveifla, ganga, hlaupa, kasta, grípa, hoppa, stökkva, klifra og hanga.

Í hreyfistund er m.a. lögð áhersla á eftirfarandi þætti (þó ekki alla í einu):

  • Jafnvægi (líkamlegt sem andlegt)
  • Samhæfingu handa og fóta
  • Samhæfingu hægra og vinstra heilahvels
  • Minni
  • Styrk
  • Liðleika
  • Skynjun (sjón, heyrn, lykt og skynjun í iljum og húð)
  • Öndun
  • Styrkjandi og valdeflandi sjálfstal
  • Slökun

Markmið hreyfistundar er eitt: Að hafa gaman!

Hreyfistund er sambland af margskonar hreyfingu og hugmyndum úr mörgum áttum t.d. íþróttum, þolþjálfun, styrktarþjálfun, hreyfiflæði og jóga

Kennari hreyfistundar er Birna Markús.


Jóga gaman

Markmiðið með jógastundunum er að æfa sig að vera hér og nú (núvitund), rækta vitund um líkamlegt – og andlegt heilbrigði, hafa kærleika og gleði að leiðarljósi. Jógakennari leikskólans eflir fjölbreyttan orðaforða, hugtakaskilning og stærðfræði í gegnum umræður, sögur og ævintýri sem unnið er með í hverri jógastund. Umræðurnar og sögurnar í jógastundum er fléttað saman við kynjanámskrá Hjallastefnunnar. Áhersla er lögð á að efla einstaklings- og félagsfærni barnanna með ýmsum leiðum. Unnið er með orð hverrar lotu sem tengjast tilfinningum, sjálfstrausti, samkennd, samskiptum og vináttu. Merking þeirra er rædd og þau sett í samhengi. Innhald jógastundanna ber keim af því hvaða lota er í gangi hverju sinni. Þannig blandast saman hreyfing, orðaforðakennsla, núvitund og slökun.

Ávinningurinn af jógastundunum mikilvægur hluti af heilbrigði hvers nemanda. Starfsfólk og nemendur eiga saman rólega stund þar sem áhersla er lögð á að efla einbeitingu, athygli, hlustun og þolinmæði. Með því að gera jógastöðurnar og hinar ýmsu teygjuæfingar er styrkur og liðleiki líkamans efldur. Umræður um tilfinningar og líðan kennir samkennd, gagnvart sjálfum sér og öðrum. Einnig styrkist líkamsvitund og trú á eigin getu. Börnin læra aðferðir sem þau geta nýtt sér hvar og hvenær sem er.

© 2016 - Karellen