Innskráning í Karellen
news

Fyrsta lota ársins er JÁKVÆÐNI

08. 01. 2024

4. Lota - JÁKVÆÐNI

Um þessar mundir hefst fjórða lota kynjanámskrárinnar okkar í skólum Hjallastefnunnar og snýst þessi lota um jákvæðni. Grunnhugtök lotunnar eru gleði, bjartsýni, ákveðni og hreinskiptni.

Jákvæðnin er einn af þeim þáttum sem skapa sérstöðu Hjallastefnuskólanna og að öðrum starfsþáttum ólöstuðum er jákvæðnin eflaust mikilvægasti liðurinn í allri okkar velgengni. Jákvæðni snýst ekki um að brosa út í eitt og sætta sig við óviðunandi ástand – heldur snýst jákvæðni um að leita lausna í stað þess að velta sér upp úr vandamálunum og koma vilja sínum á framfæri með jákvæðu móti en af hreinskiptni og ákveðni.

Í jákvæðnilotunni er gleðin æfð af kappi og trúum við því að gleði, kátína, söngur, dans og hlátur sé heilsubætandi og streitulosandi. Jákvæðni er í sjálfu sér ekki erfið þegar allt gengur vel en í mótbyr og andstreymi reynir á að halda gleðinni og jákvæðu hugarfari og þá er einmitt mesta þörfin á slíku. Núna þegar aðstæður í samfélaginu eru erfiðar og örvænting og streita hefur yfirhöndina í almennri umræðu er mikil þörf á að æfa jákvæðnina og einkum þurfa börnin á henni að halda þar sem þau skilja ekki um hvað efnahagsörðugleikarnir snúast en hafa samt sem áður áhyggjur.

Við hlökkum til að æfa gleði, bjartsýni, ákveðni og hreinskiptni af kappi næsta mánuðinn og vonum að foreldrar og fjölskyldur verði samferða skólunum í þessum áherslum. Jákvæðni er auðvitað eitt af þeim áhöldum sem Hjallastefnuskólar nota allt árið en í lotunni gefst tækifæri til þess að skerpa enn betur á og leggja sérstaka áherslu á þessa frábæru og geðverndandi mannrækt.

© 2016 - Karellen